Allt á réttri leið

Þetta er allt að koma. Maður les það náttúrulega úr hagtölum og í erlendum fjölmiðlum. Þetta kemur náttúrulega ekki fram hjá hrun- og tuðverjum. En sumir þola mjög illa árangur þessarar ríkisstjórnar.
mbl.is „Mikil ábyrgð að velta steinum í götuna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkum vextina aftur.

Þeir voru miklu flottari með skeggið.

Hækkum vextina aftur upp í 10%Smile


mbl.is Skeggið fokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúklingar án landamæra

Það var góð grein í NY Times Magazine um læknasamtök sem nefnast RAM (Remote Area Medical).

Þeir ferðast um heiminn og veita fólki ókeypis læknisþjónustu. Þeir hafa farið til Guyana, Indlands, Tansaníu og Haítí.

Í greininni var fjallað um eina slíka ferð - til Virginíu!

Já slík er þörfin heimafyrir að þeir þurfa í raun ekkert að ferðast út fyrir landssteinana. Þeir setja upp aðstöðu á túni þar sem kappreiðar fara venjulega fram. Þar slá þeir upp tjöldum og vinna heila helgi.
Biðröðin eftir þjónustu byrjaði að myndast klukkan þrjú um nóttina, og það biðu 800 manns þegar þeir opnuðu klukkan hálf sex á laugardagsmorgni.

Flestir koma í augnskoðun og til tannlæknis. Þeir draga tennur úr fólki þarna í massavís.

Þeir reyna líka að bjóða upp á greiningu á sykursýki og leghálsskoðun hjá konum en eftirspurnin er lítil. Fólk kemur vegna verkja, eða vegna þess að það sér ekki nógu vel til að geta verið í vinnu.

Á myndunum má sjá hversu frumstæð aðstaðan er, svona eins og maður sér kannski á stöðum þar sem miklar náttúruhamfarir hafa átt sér stað og einhverju er hrugað saman í skyndi.

Svona eru andstæðurnar í heilbrigðiskerfinu hér.

Hér er tengill á greinina, veit ekki hvort að hann virkar!

Sicko

Jæja, við drifum loksins í að sjá Sicko, hún er komin út á dvd. Hún er mjög góð, margir góðir punktar. Það hljóta að vera svo gífurlegir fjármunir sem tapast vegna allra þessara milliliða sem trygginafélögin eru. Fyrir þá peninga mætti gera margt.
Ég þarf sem betur fer í minni vinnu ekki að spá í hver er með tryggingu og hver ekki, en þetta er víða mikill höfuðverkur. Það fer mikill tími í að reyna að finna úrræði fyrir fólk sem ekki er tryggt.

Maður hefur oft velt því fyrir sér hvernig standi á því að árangur íslensks heilbrygðiskerfis virðist vera mjög góður þó maður hafi oft hið þveröfuga á tilfinningunni. Ein ástæðan er sú að á Íslandi eru allir tryggðir og allir eru með, og hér í Bandaríkjunum verður árangur (t.d. 5 ára lifun eftir brjóstakrabbameinsgreiningu) aldrei jafn góður, sama hversu miklu er spanderað í meðferð margra (en ekki allra). Annar þáttur er líka heilbrygðari lífsstíll og öðruvísi genasamsetning (það er t.d. lítið um sykursýki á Íslandi.)

Það er ofsalega auðvelt á fá það á tilfinninguna að meira sé betra, þó það sé oft ekki mikið rannsakað. Heyrði í konu í útvarpinu í dag sem er að gefa út bók sem fjallar um aukaverkanirnar af öllum oflækningunum hér vestra. Það er svo margt í læknisfræði sem er gert, kannski af gömlum vana sem er illa rannsakað, og vandinn er sá að nánast öll inngrip geta verið skaðleg fyrir einhvern hluta sjúklinganna. Hér er miklu meira gert, miklu meira um CYA (cover your ass) lækningar sem felast í því að ofransaka hluti og koma þannig í veg fyrir að maður verði lögsóttur. Hin hliðin er náttúrulega sú að maður verður brjálaður þegar maður fréttir af einhverju á Íslandi sem ekki greindist eða ekki var gert fyrir eihvern sluksa- eða kæruleysishátt. Það er vandlifað í heimi læknavísindanna.

Konan sem viðtal var við á NPR tók sem dæmi high dose chemotherapy sem meðferð við brjóstakrabbameini. Hugmyndin var að gefa hærri skammt af krabbameinslyfjum og bjarga síðan sjúklingunum með mergskiptum. Hljómaði vel og lógískt og lyfjafyrirtækin græddu sinn skerf. Eftir mörg ár kom í ljós að útkoman var verri en við hefðbundna krabbameinslyfjameðferð.

Heima á Íslandi man ég eftir mikilli umræðu um aðgerð á röngum fæti á sjúklingi. Þetta er náttúrulega eitt það versta sem komið getur fyrir. Þegar ég fór heim í sumar var í gangi kerfi til að athuga einmitt með þetta atriði. Hér á Strong er miklu yfirgripsmeira kerfi í 7 liðum til að athuga með marga mikilvæga þætti. Ýtarlegra og betra ekki satt? Mér fannst það alla vegana meira traustvekjandi eins og það er gert hérna úti. En síðan sagði einn félagi minn mér að aðgerðum á röngum útlimum hefði í raun fjölgað eftir að svona kerfi var allsstaðar komið á. Það er kannski vegna þess að þá hugsar fólk ekki lengur, og kannski vegna þess að í stað þess að einblína á einn þátt (réttan aðgerðarstað) þá eru nú komnir inn í þetta allskonar aðrir hlutir á minnislistann. (Voru sýklalyf gefin, var gefin segavörn, var skurðlæknirinn búinn að hitta sjúklinginn í dag, fékk sjúklingurinn beta blokkara, var sjúklingurinn búinn að undirrita samþykki fyrir aðgerð...)

Fyrst eftir að ég kom hingað út fannst mér hjúkkurnar hér að sumu leyti betri en heima. Þær ganga jú hér um með hlustpípur eins og við læknarnir og eru oft liðtækari við ýmiskonar handverk eins og blóðprufur og fleira. Þær skrifa líka miklu meira hér. En þegar ég kom heim í sumar tók ég eftir því að íslenskir sjúklingar fá sennilega miklu betri hjúkrun, vegna þess að hjúkrunarfræðingarnir á Íslandi eru aðallega í því að hjúkra en ekki í öllu hinu.

Það er miklu líklegra að hér í Bandaríkjunum sé allt vel skráð, t.d. um allt það sem er gert til að koma í veg fyrir legusár, en ég held að það sé milu líklegra að sjúklingur fái legusár hér heldur en heima.

Minna er oft meira.
Hvað er best?
Veit það ekki.
Því er erfitt að svara.


Fall dollarans

Heima á Íslandi skrifaði Dr. Gunni frábæran pistil um hnignum frábærleikans fyrir stuttu. Hitti beint í mark. En hér fyrir westan hafa menn áhyggjur af stöðu dollarans. Fyrst fréttist það að þýsk ofurfyrirsæta krefðist þess að fá borgað í evrum en ekki í dollurum. Svo kom sjálft áfallið þegar ofurrapparinn Jay-Z létt glitta í búnt af evruseðlum í tónlistarmyndbandi.
Halló!
Þetta væri eins og að Bæjarins Bestu auglýstu eina með öllu í evrum. Þá væri virkilega kominn tími til að hafa áhyggjur. Ætli íslensku seðlabankastjórarnir fari bara ekki bráðum að fá borgað í evrum? Eru þetta ekki bara dauðakippir í krónunni?

Ingrid Michaelson og William Fitzsimmons



Ég hef einfaldan tónlistarsmekk. Undanfarið hef ég getað lifað nokkurs konar sníkjulífi á tónlistarvali Zach Braff (leikara í Scrubs). Ef hann mælir með einhverju þá eru góðar líkur á að mér þyki það áheyrilegt. Ég sá um daginn að hann mælti með Ingrid Michaelson. Hún hefur verið að gera það gott undanfarið, átti m.a. lag í Grey´s Anatomy og hefur verið að mæta og spila í spjallþáttum í sjónvarpinu. Ég skellti mér á itunes og fékk mér lagið The Way I Am. Síðan sá ég að hún var að koma til Rochester til að hita upp fyrir einhvern annan. Ég skellti mér á tónleikana en því miður var hún búin að spila þegar ég mætti. Komst ekki að því fyrr en ég var búinn að hlusta á hitt upphitunarbandið sem var hljómsveit frá Kaliforníu. Þeir voru sæmilegir, en ekki nógu reiðir, allt of kátir. Það er náttúrulega ekki eðlilegt að opna húsið klukkan 7 og vera búin með upphitunarnúmer fyrir háttatíma barnanna. Ég var síðan eitthvað að vafra þarna um og fór og keypti diskinn hennar. Fannst ég eitthvað kannast við stelpuna sem var að selja og þá var þetta auðvitað hún sjálf. Diskurinn er mjög góður, rennur bara ljúft í gegn. Maður þarf ekkert að vera að skippa yfir óþolandi lög. Kannski smá Norah Jones fílingur í þessu en samt ekki eins jassað.


Zach Braff mælti líka með öðrum sem er fínn og heitir William Fitzsimmons. Hann er frá Pittsburg og alinn upp af foreldrum sem bæði eru blind. Mæli með laginu hans Funeral Dress.

Þau hafa stundum verið með tónleika saman og það væri náttúrulega frábært að komast á svoleiðis.

Landlæknir Bandaríkjanna: Læknir eða strengjabrúða?

Var að lesa magnaða grein á NY Times vefnum um það hvernig núverandi stjórnvöld hér í landi tækifæranna taka pólitík óhikað fram fyrir vísindi og almenna heilbrigða skynsemi. Maður vissi svo sem um þetta sumt, sérstaklega hvað varðar hlýnun jarðarinnar, en nú hefur þingnefnd verið að yfirheyra fyrrverandi landlækna Bandaríkjanna til að reyna að komast að því hvort þeir hafi verið beittir óhóflegum pólitískum þrýstingi. Svarið er já.

Richard H. Carmona, landlæknir Bandaríkjanna frá 2002-2006, greindi frá því að stjórnvöld hafi hvað eftir annað reynt að draga úr innihaldi eða halda utan dreifingar mikilvægum heilsufarsskýrslum vegna pólitískra hagsmuna.

Hér eru nokkrir góðir punktar frá Dr. Carmona.

Reynt var að halda aftur af og draga úr orðalagi skýrslu sem sýndi fram á að óbeinar reykingar eru jafnvel hættulegri en áður var talið. Þegar stjórnvöld höfðuðu mál gegn tóbaksframleiðendum var honum ráðlagt gegn því að koma fram sem vitni við réttarhöldin.

Hann mátti hvorki tala né gefa út skýrslur um fósturvísastofnfrumur, neyðargetnaðarvarnir, geð-, fangelsis-, eða alheimsheilbrigðismál. Sumum af þessum umræðuefnum var eytt úr ræðum sem hann hafði samið.

Í einhverjum tilvikum mætti hann á fundi hlaðinn niðurstöðum vísindamanna, en það vildi enginn hlusta vegna þess að það var búið að ákveða stefnuna fyrir fram. Gott dæmi um þetta er kynlífsfræðsla, en stjórnin var búin að ákveða að skírlífisáróður yrði aðaláherslan sama hvað öllum rannsóknaniðurstöðum liði.

Hann var lattur til að fara á ólympíuleika fatlaðra vegna þess að samtökin sem standa fyrir þeim eru allt of tengd Kennedy fjölskyldunni.

Honum var gert að minnast þrisvar á Bush forseta á hverri blaðsíðu sérhverrar ræðu sem hann flutti.

Kemur ef til vill ekki á óvart að hann var ekki beðinn að sitja önnur 4 ár í starfi. Þeir fundu líka einn góðan kollega með ríkulegan skammt af hommafóbíu sem þeir ætla að sverja næst í embættið.

Og svo veittu þeir opinberu fé til sértrúarsafnaðar til að stunda afeitrun eiturlyfjafíkla.
Ó nei, fyrigefið þið mér, það var ríkisstjórn Íslands sem gerði það!

Þess má geta að Ólafur Ólafsson landlæknir var síðasti íslenski landlæknirinn sem ekki var skipaður af heilbrigðisráðherra.  Hann var skipaður af forseta og var ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar. Þegar hann hætti var lögunum breytt og landlæknir er nú skipaður af ráðherra.

Það er kannski víðar en hér vestra sem menn vilja geta haft góða stjórn á embættismönnum, landlæknum sem öðrum.

Hættulegasti mánuðurinn

Júlí er hættulegasti mánuðurinn hér vestra. Alla vega fyrir sjúklinga. Það byrja allir kandídatarnir sama daginn, fyrsta júlí, og þann mánuðinn eru lífslíkur sjúklinga á bandarískum spítölum verri en ella. Af þessu eru til ýmsar sögur, og hér kemur ein.

Fyrsta júlí í fyrra var ég að svæfa fyrir vini mína háls-, nef- og eyrnalæknana. Chandler var á vaktinni, læknanemi í gær, á vakt sem aðstoðarlæknir í dag. Allt í einu pípti píptækið hans og það kom mikið fát á karlinn. Nokkru síðar glumdu "bjöllurnar" og í hátalarakerfi spítalans var kallað akút eftir HNE á "herbergi 2". Eftir á að hyggja voru þetta undarlega skilaboð og ekki alveg nóg skýr, kannski að sú á skiptiborðinu hafi líka byrjað þann daginn? En hvað um það, Chandler dreif sig á skurðstofu 2 og hélt að þar væri einhver að deyja sökum bráðs skorts á öndunarvegi, en svo var ekki. Í ljós kom að kallið kom frá sjúklingaherbergi nr. 2 á slysó. Öll HNE hersingin fór síðan þangað. Nokkru síðar komu þeir allir aftur inn á skurðstofuna þar sem ég var og engdust og kútveltust um af hlátri. Það kom í ljós að þeir á bráðamóttökunni höfðu verið að reyna að barkaþræða (eða intúbera) sjúkling og óvænt lent í vandræðum. Var þá brugðið á það ráð að kalla á HNE til að skera sjúklinginn á háls til að bjarga honum frá bráðum súrefnisskorti. Þeir framkvæmdu reyndar ekki barkaskurðinn þrátt fyrir allt vegna þess að ástæðan fyrir því að ekki tókst að "intúbera" sjúklinginn á bráðamóttökunni var sú að hann var.......stífur.
Hann var búinn að vera dáinn svo lengi að hann var farinn að stirðna.

Þannig er það nú hjá því.

Hver kálaði rafmagnsbílnum?

Sáum myndina Who killed the electric car um daginn. Alveg hreint stórgóð.

Þannig var að í Kaliforníu voru sett lög um að bílaframleiðendur yrðu að bjóða upp á "zero emission" bíla til að mega selja bíla í fylkinu. Þeir urðu að því að gjöra svo vel og hanna rafmagnsbíla. GM framleiddi EV1 bílinn sem reyndist mjög vel en bílaframleiðendurnir voru alltaf á móti hugmyndinni og fengu lögunum breytt fyrir rest. Þá datt allur þrýstingur niður og þeir hættu að framleiða bílana. En það var ekki nóg með það, því þeir innkölluðu þá líka (þeir voru allir í leigu, það mátti ekki kaupa þá). Fólkið sem hafði fengið að nota þá var hissa á þessu og mjög margir vildu reyna að kaupa bílinn sinn þegar leigusamningurinn rann út. En það var ekki tekið í mál. Síðan var mikið leyndarmál hvað átti að gera við þá. Það kom í ljós að GM fór með bílana til Arizona og lét eyðileggja þá! Fólkið sem hafði haft bílana á leigu var náttúrulega alveg eyðilagt yfir því....

Ýmislegt annað skemmtilegt kemur fram í myndinni eins og t.d. að fyrirtækið sem fann upp bestu rafhlöðuna fyrir EV1 var keypt upp af olíufyrirtæki.

Boðskapur myndarinnar er sá að framtíðin er núna, það er búið að finna lausnina og hún er einföld og endingargóð. Vandamálið er bara það að það yrðu svo margir taparar ef bensínvélunum yrði ýtt af markaði, þ.e. bíla- og olíuframleiðendur. Þess vegna passa þeir og reyna í fremstu lög að halda aftur af þróuninni.

Vetnisbílar fá fremur lélega einkunn í myndinni. Þeir eru dýrir og það þarf dýran infrastrúktur til þess að allt virki (rafmagnsbíll þarf bara venjulega innstungu...) Það er búið að halda vetnisbílunum á lofti áratugum saman og alltaf er fólki sagt að það séu 10 - 15 ár í að þeir komi á markað. Á meðan halda þeir áfram að framleiða bensínbíla(sem þurfa mikið viðhald) og dæla og selja okkur olíu.

En kannski maður ætti að hætta þessu væli og fá sér almennilegan sprotbíl.
4 sek upp í hundraðið,
.....og fer 200 mílur á hleðslunni!
Kostar 100 þúsund dollara.
Framtíðin er komin. Meira um bílinn hér.

Á framboðsfundi með Obama

 

 


Við vorum stödd í New Hampshire um helgina og fréttum að Barack Obama yrði með framboðsfund á svæðinu daginn eftir. Við ákváðum að skella okkur .

Fundurinn var haldinn á campus Dartmouth háskólans í litlu porti og það mættu um 5000 manns. Obama er nánast eins og rokkstjarna, það hafa verið að mæta 10 - 20 þúsund manns á fundi hjá honum í stærri háskólabæjum.

Þetta fór eiginlega fram eins og rokktónleikar, nema það var ekkert ljósashow. Það var a capella sönghópur sem hitaði upp fyrir kappann og hann lét dálítið bíða eftir sér og fólk var orðið óþreigjufullt og fagnaði ákaft þegar hann lét sjá sig.

Hann fór vítt og breitt um hið pólitíska svið og útskýrði meðal annars hvers vegna hann hefði skellt sér út í pólitík. Saga hans er mögnuð, og maður fékk það á tilfinninguna að hann sé alveg hreint ekta og standi í þessu streði öllu út frá réttum forsendum. Hann er áhrifamikill ræðumaður og maður klökknaði á stundum við að heyra hann tala. Hann fjallaði um óréttlætið, stríðið, mannréttindabaráttu blökkumanna, götin í heilbrigðiskerfinu og ótal margt fleira.  

Sumum punktum í ræðunni var ákaflega vel tekið eins og t.d. þegar hann lýsti því hvernig heimurinn mundi varpa öndinni léttar þegar Bush færi frá. 

Mér finnst nánast að ég hafi orðið vitni að einhverju stóru sem sé um það bil að fara að gerast.
Frábær náungi og ég vona að honum gangi sem best og verði annar af frambjóðendum demókrata í forsetakosningunum.

Þegar fundinum lauk fór ég að sjálfsögðu upp að sviðinu og freistaði þess að heilsa kappanum, eins og ég gerði við Bill Clinton síðasta haust þegar hann kom til Rochester. Ég labbaði nánast yfir fólk þangað til ég komst í færi við hann og rétti svo út spaðann. Hann heilsaði mér auðvitað og þá varð Meredith strax að orði "That was a waste of a handshake."

Uss, Hann veit ekkert að ég má ekki kjósa.....


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband